Skaginn hf. á Akranesi ásamt samstarfsfyrirtækjum sínum Frost ehf. og Rafeyri ehf. á Akureyri hefur samið við Eskju hf. um smíði og uppsetningu á búnaði í nýja verksmiðju fyrir vinnslu á uppsjávarfiski til manneldis á Eskifirði. Verksmiðjan verður í nýju 7.000 fermetra stálgrindarhúsi og er áætlað að hún taki til starfa í september á þessu ári eða eftir aðeins rúmt hálft ár, að því er segir í fréttatilkynningu frá Skaganum.
Stefnt er að því að í verksmiðjunni verði hægt að frysta um 700 til 900 tonn afurða á sólarhring. Haft er eftir Þorsteini Kristjánssyni forstjóra Eskju í Morgunblaðinu að fyrirhugað sé að skipta vinnsluskipinu Aðalsteini Jónssyni út þegar frystihúsið verði komið í notkun því hagkvæmara sé orðið að frysta fiskinn í landi heldur en á sjó.
Þetta er í þriðja skiptið sem áðurnefnd þrjú fyrirtæki mynda með sér bandalag um verk sem þetta en fyrri verkin voru tvær sambærilegar verksmiðjur í Færeyjum á árunum 2012 og 2014.
Verkefnið mun skapa fjölmörg störf víðs vegar um landið. Stærsti hluti smíðinnar mun fara fram á Akranesi hjá Skaganum, systurfyrirtækinu Þorgeir & Ellert hf. og fjölmörgum öðrum fyrirtækjum í bænum. Á Akureyri eru það samstarfsfyrirtækin Frost og Rafeyri ásamt nokkrum öðrum fyrirtækjum. Á Ísafirði mun systurfyrirtæki Skagans, 3X Technology ehf. sjá um stóran hluta smíðinnar ásamt samstarfsfyrirtækjum þar. Í Garðabæ koma að verkinu fyrirtækin Style ehf. og Marel Iceland ehf. auk starfsstöðvar Frosts þar. SR vélaverkstæði hf. á Siglufirði mun einnig koma að verkinu auk fjölmargra minni fyrirtækja víðs vegar um land.
Það er verkfræðistofan Efla á Austurlandi sem sér um hönnun verksmiðjuhússins og mun framkvæmdin verða í höndum verktaka á Eskifirði og í nágrenni.
Ingólfur Árnason framkvæmdastjóri Skagans segir verkefnið það stærsta sem fyrirtækið, ásamt samstarfsaðilum, hafi tekið að sér til þessa, að því er kemur í frétt frá fyrirtækinu um málið.