Aflahlutdeild (kvóti) verður sett annars vegar í úthafsrækju og hins vegar rækju við Snæfellsnes, það er í Kolluál, Jökuldjúpi og sunnanverðum Breiðafirði, verði nýtt stjórnarfrumvarp að lögum, að því er fram kemur á vef Morgunblaðsins.
Sjötíu prósent aflahlutdeildarinnar eiga að vera samkvæmt skráðum aflahlutdeildum hvers fiskiskips í úthafsrækju við lok síðasta fiskveiðiárs. 30% verða samkvæmt aflareynslu hvers fiskiskips í úthafsrækju á þremur síðustu fiskveiðiárum þegar veiðar voru frjálsar.
Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að tæpur helmingur úthafsrækjuaflans síðustu þrjú árin hafi verið veiddur af skipum útgerða sem ráða ekki yfir skráðri aflahlutdeild. Bátar sem stunduðu veiðar á úthafsrækju voru 27 fiskveiðiárið 2010/2011 en hafði fjölgað í 50 á síðasta fiskveiðiári, segir ennfremur á mbl.is.