Það stefnir í hörð átök um veiðar í Smugunni í Barentshafi í annað sinn. Nú snýst baráttan ekki um þorskveiðar eins og var fyrir tveimur áratugum heldur um rými til að stunda rækjuveiðar annars vegar og snjókrabbaveiðar hins vegar, en snjókrabbinn er ný nytjategund í Barentshafi.
Fiskeribladet/Fiskaren í Noregi hefur heimildir fyrir því að um 20 snjókrabbaskip verði að veiðum í Smugunni í desember samtímis alþjóðlegum rækjuveiðiflota.
Bæði rækjuveiðarnar og snjókrabbaveiðarnar eiga sér stað á takmörkuðu svæði syðst og austast í Smugunni. Nú þegar hefur komið til núnings þeirra í milli. Bent er á að þegar séu í gildi reglur bæði frá Sameinuðu þjóðunum og NEAFC um veiðar á alþjóðlegu hafsvæði. Samkvæmt þeim mætti rækjutogari ekki hefja veiðar á svæði þar sem snjókrabbagildrur væru í sjó og sömuleiðis mættu snjókrabbaveiðimenn ekki leggja gildrur sínar þar sem rækjutogari væri byrjaður veiðar. Það er svo óleyst mál hverjir eiga að sjá til þess að þessum reglum sé fylgt.