Eigendur IceTugs eru bræðurnir Bragi Már og Ægir Örn Valgeirssynir sem reka einnig Skipaþjónustu Íslands. Þeir keyptu Kleifabergið af Brim hf. þegar því var lagt árið 2020 eftir langan og gifturíkan feril á Íslandsmiðum. Gerðar voru breytingar á skipinu og síðasta sumar var það gert út sem þjónustuskip fyrir starfsmenn ástralsks námuvinnslufyrirtækis sem stóð fyrir borunum og sýnatökum á Grænlandi. Leitað er verðmætra málma á svæðinu, kopars, sinks og jafnvel gulls. Í jörðu á Grænlandi er einnig að finna málma sem eru notaðir í hátækniiðnaði, t.a.m. í snjallsíma, rafbíla og vopn. 2019 keypti Skipaþjónustan skuttogarann Mars RE sem áður hét Sturlaugur Böðvarsson AK sem HB Grandi gerði út og fór í sína síðustu veiðiferð í febrúar 2018. Skipið var smíðað hjá Þorgeir & Ellert hf. á Akranesi árið 1981. Ægir Örn segir að búið sé að ganga frá sölu á skipinu til brotajárnsvinnslu til fyrirtækis í Belgíu

Bragi segir Argus henta vel fyrir Grænlandsverkefni IceTugs.

„Þetta er skip í super 1 ísklassa, tekur 50 manns í kojur. Það var smíðað fyrir dönsk stjórnvöld á sínum tíma og var í drift í Grænlandi upphaflega. Það hefur verið notað sem þjónustuskip í Norðursjónum núna undanfarin 20 ár. Það er verið að klassa skipið upp úti í Danmörku núna og við eigum von á því til Reykjavíkur í næstu viku,“ segir Bragi.

Siglir í eins metra ís

Skipið var smíðað árið 1971 í skipasmíðastöðinni í Svendborg í Danmörku og er, sem fyrr segir í Super 1 ísklassa sem er næsta stig fyrir neðan ísbrjóta. Það er með tveimur B&W Alpha dísilvélum, samtals 3.480 hestöfl. Í skipinu eru 37 káetur, tvö eldhús og tveir setustofur með hvíldaraðstöðu. Skipið var síðast í eigu Esvagt í Danmörku sem notaði það við þjónustu við danskan olíu- og gasiðnað í Norðursjó. IceTugs er þriðji eigandi skipsins sem Bragi segir að sé í góðu ástandi enda fengið toppviðhald alveg frá upphafi.

„Þetta er þriðja árið í röð sem við sinnum þessum verkefnum við Grænland. Það hafa verið fleiri fyrirspurnir til okkar í þessa veru og það bætist núna við annað námuvinnslufyrirtæki frá Ástralíu. Við sáum okkur ekki fært annað en að bæta við skipakostinn.“

Kleifabergið og Argus verða því bæði í þjónustu fyrir námuvinnslufyrirtækin frá vordögum og langt fram á haust. Átta verða í áhöfn hvors skips. Argus er mun öflugra skip og getur siglt í um eins metra þykkum ís og getur því verið að yfir lengra tímabil við Grænland.