Landhelgisgæslan telur að nýtt varðskip með sambærilegum búnaði og varðskipið Freyja gæti kostað í kringum átta milljarða miðað við fjölda véla og búnað. Þegar allt er talið saman er ekki útilokað að verðið gæti orðið allt að 10 milljarðar, að mati siglingasviðs Gæslunnar.
Þetta kemur fram í skriflegu svari til Fiskifrétta en mat Landhelgisgæslunnar tekur m.a. mið af því hvað nýr togari með eina aðalvél og eina til tvær ljósavélar kostar sem er fjórir til sex milljarðar eftir stærð. Íslenska ríkið greiddi rúma 1,8 milljarða fyrir varðskipið Freyju sem hefur reynst afar vel frá því það kom til landsins.
Freyja fyrir Tý
Tilkynnt var í mars 2021 að ráðist yrði í kaup á varðskipi fyrir Landhelgisgæsluna sem kæmi í stað varðskipsins Týs, en þá hafði komið í ljós alvarleg bilun í varðskipinu sem þjónað hafði í um hálfa öld. Var þá ljóst að viðgerð yrði kostnaðarsöm. Í apríl 2021 var því efnt til útboðs og að því loknu var tilboði tekið í skip sem smíðað var í Suður-Kóreu árið 2010 og nýtt sem þjónustuskip fyrir olíuiðnaðinn.
Landhelgisgæslan og stjórnvöld tóku þá sameiginlegu ákvörðun að skipið bæri nafnið Freyja og að heimahöfn skipsins yrði Siglufjörður. Rökin fyrir þessari staðsetningu heimahafnar skipsins eru m.a. auknar skipaferðir um norðurslóðir og fjölgun ferða stórra flutninga- og olíuskipa með austur- og norðurströndum Íslands. Klukkustundir til eða frá geta þá skipt sköpum. Útlit er fyrir að ferðum skemmtiferðaskipa fjölgi einnig.
Skipið kom fyrst til heimahafnar á Siglufirði þann 6. nóvember en Freyja er að miklu leyti sambærilegt varðskipinu Þór hvað stærð og aðbúnað varðar en býr yfir meiri dráttargetu.
Strax reyndi á
Þess var ekki lengi að bíða að Freyja fengi stórt verkefni til úrlausnar. Að kvöldi 16. desember strandaði grænlenska skipið Masilik við Gerðistanga á Vatnsleysuströnd. Varðskipið Freyja var þá statt í Hafnarfirði og var fljótt á strandstað. Áhöfnin kom dráttartaug á milli skipanna vandræðalaust en Masilik steytti á skeri um 500 metra frá landi. Skipið náðist af strandstað á flóði um nóttina og engan sakaði.
- Freyja í Reykjavíkurhöfn. Mynd/Svavar
Áður en Freyja brást við strandi grænlenska skipsins hafði reynt á skipið í öðrum verkefnum, þar á meðal að draga flutningaskipið Franciscu frá Straumsvík til hafnar á Akureyri.
Fiskifréttir hafa spurnir af því að áhöfn Freyju lýsi því sem „frábæru skipi“ og standist allar væntingar og vel það. Því virðist sem stjórnvöld og Landhelgisgæslan hafi tryggt sér frábært björgunartæki fyrir fimmtung þess kostnaðar sem til hefði fallið ef ákveðið hefði verið að láta smíða nýtt skip fyrir Gæsluna. Er þá ótalinn sá tímasparnaður sem er augljós en smíðatími slíks skips, þegar útboðs- og hönnunarferli er tekið með í reikninginn, hefði sennilega verið 3-4 ár í stað þeirra 9 mánaða sem liðu frá því að ákvörðun um kaupin á Freyju voru tekin og þangað til hún sigldi inn til heimahafnar á Siglufirði í byrjun nóvember.