Norðmenn hafa verið duglegir að endurnýja fiskiskipaflota sinn á undanförnum árum. Nú hefur verið samið um enn eina nýsmíðina, að þessu sinni í Karstensen skipasmíðastöðinni í Danmörku. Um er að ræða 79,75 metra langt og 15,5 metra breitt tog- og nótaskip fyrir Peter Hepsö útgerðina. Skipið fær nafnið Rav og leysir af hólmi 65 metra skip með sama nafni sem smíðað var árið 2003 en verður nú selt.
Skipið mun stunda togveiðar á kolmunna aðallega vestan við Írland og nótaveiðar á síld og makríl annars staðar. Hepsö útgerðin var stofnuð árið 1917 og er þriðja kynslóð fjölskyldunnar við stjórnvölinn og sú fjórða einnig komin um borð. Þetta er níunda nýsmíði útgerðarinnar.
Við hönnun skipsins var lögð sérstök áhersla á öryggi og góða vinnu- og hvíldaraðstöðu fyrir áhöfnina. Í frétt frá skipasmíðastöðinni er tekið fram að Rav verði fyrsta nýbyggða uppsjávarskipið í norska flotanum með vatnsþétt efsta þilfar. Fríborð verði aukið um næstum þrjá metra. Aðalvélin er 5.000 kW og vindukerfið er rafdrifið.
Rav er þrettánda uppsjávarskipið í pöntun hjá Karstensen um þessar mundir og verða skipin afhent á næstu þremur árum.