Færeyingar eru komnir með „nýtt“ Næraberg í rekstur, en það var keypt í Hollandi og er með heimahöfn í Klakksvík. Þessi frystitogari leysir af hólmi eldra skip með sama nafni sem selt hefur verið til Hollands en það kom nokkuð við sögu á Íslandi síðastliðið sumar eins og kunnugt er.
Nýja Nærabergið er nýkomið úr prufutúr sem hófst og endaði í Klakksvík. Aflinn var 600 tonn af kolmunna sem frystur var um borð. Það fylgir fréttinni að skip og búnaður hafi reynst vel og að mannskapurinn sé almennt ánægður með fleyið.