Marel hefur skrifaði undir samning við HB Granda um kaup á vinnslukerfi fyrir bolfisk sem sett verður upp í starfsstöð fyrirtækisins á Vopnafirði. HB Grandi vinnur að því að styrkja starfsemina á svæðinu.
Samningurinn kveður á um vinnslukerfi sem inniheldur hráefnisflokkara, 10 stæða flæðilínu með einstaklings framtaki, FleXicut vatnsskurðarvél og FleXisort afurðaflokkara ásamt pökkunarstöðvum. HB Grandi kaupir einnig Innova framleiðsluhugbúnað sem styður við tækjabúnaðinn og gerir þeim kleift að hámarka nýtingu og afköst, uppfylla gæðakröfur og staðla um matvælaöryggi, segir í frétt frá Marel.
"Samningurinn við Marel er liður í uppbyggingu okkar hér á Vopnafirði," segir Magnús Þór Róbertsson, vinnslustjóri HB Granda.
FleXicut vatnsskurðarvélin beitir háþróaðri tækni til að finna og fjarlægja beinagarðinn úr hvítfiski. Þessi tækni hefur gjörbreytt landslaginu í vinnslu á fiskflökum. FleXicut notar háþróaða röntgentækni til að greina og staðsetja beingarð í ferskum þorski, ýsu, ufsa og karfaflökum, sker svo beingarðinn burt með vatnsskurði af mikilli nákvæmni og hlutar flakið niður í bita eftir fyrirfram ákveðnum skurðarmynstrum.
„Kaup HB Granda á þessu nýja kerfi er skref í áttina að innleiða nýja tækni í flakavinnslu, bitaskurði og pökkun á hvítfiski,“ útskýrir Óskar Óskarsson, sölustjóri Marel á Íslandi. ,,Með þessu nýja kerfi er stefnt að því að ná sem bestri nýtingu og hámarka verðmæti flaksins. FleXicut og kerfið er hannað til að hámarka nýtingu og viðhalda gæðum hráefnisins.“
Innova hugbúnaðurinn safnar upplýsingum úr öllu framleiðsluferlinu í rauntíma. Það inniheldur meðal annars vandað gæðaeftirlit með innbyggðu umhverfiseftirliti þar sem hægt er að fylgjast með öllum vinnsluþáttum og stjórna nákvæmlega hvernig hráefnið fer í gegnum kerfið. „Rauntímaeftirlit skiptir miklu máli og með Innova fær HB Grandi mjög fullkomið framleiðslustýrikerfi,“ segir Óskar.
HB Grandi og Marel skrifuðu undir samning í húsakynnum HB Granda á Vopnafirði þann 1. Júní og mun uppsetning kerfisins hefjast í haust.