Norðmenn undirbúa sig undir komandi loðnuvertíð og er eitt skip, Fiskebas, nú þegar komið á miðin í íslenskri lögsögu, að því er fram kemur á vef norska síldarsamlagsins.
Fiskebas er rúmar 50 mílur norðaustur af Langanesi. Skipstjóri skipsins segir að loðnan standi djúpt, frá 80 metrum og niður. Norsku skipin mega aðeins veiða loðnu í nót og eiga því erfitt um vik á meðan loðnan heldur sig á þetta miklu dýpi.
Einn liður í undbúningi Norðmanna er að ákveða lágmarksverð fyrir loðnuna. Kaupendur og seljendur hafa komið sér saman um að lágmarksverðið sé 2,50 norskar krónur á kíló af loðnu sem landað er til manneldisvinnslu (37,47 ISK).