Grænlendingar eru nýbúnir að undirrita samning um smíði á nýju hafrannsóknaskipi, sem á að kosta um 4,2 milljarða króna og kemur væntanlega til Grænlands byrjun 2021.

„Það var verið að klára að undirrita samning við Astellieros Balenciaga skipasmíðastöðina á Spáni. Það er búið að skrifa undir samninginn og nú verður farið í að skrifa undir aðra pappíra sem þurfa að fylgja,“ segir Hilmar Ögmundsson hagfræðingur og ráðgjafi í fjármálaráðuneyti Grænlands.

Grænlendingar hafa haft tvö skip í hafrannsóknum. Annað er minna, strandveiðiskip sem heitir Sanna og er í strandrannsóknum og inni í fjörðum. Hitt hét Paamiut, stærra skip sem nú er ónýtt og hefur verið afskráð.

„Því var lagt hér í Hafnarfirði,“ segir Hilmar. „Þetta var yfir 40 ára gamalt skip og það kom bara í ljós að það var of mikið að, tæring og fleira. Það borgaði sig ekki að gera við. Það hefði bara eitthvað annað komið í ljós seinna meir.“

Þangað til nýja skipið kemur verður takmörkun á því hvað hægt sé að framkvæma hafrannsóknir við Grænland. Sanna verður áfram í strandrannsóknum og svo verða Grænlendingar í samstarfi við íslensku Hafrannsóknastofnunina um loðnurannsóknir.

„Væntanlega kemur líka inn einhver rannsókn með leiguskipum á makríl og síld. Svo veit ég ekki hvort það verður leigt inn skip fyrir rækjuna, en ég á ekki von á því. Bæði er erfitt að fá leigt skip og svo er erfitt að fá skip sem er með þann búnað sem þarf til að rannsaka.“