Innan skamms verður byrjað að vinna fisk í nýju fyrirtæki á Flateyri. Fyrirtækið hefur fengið nafnið Fiskvinnsla Flateyrar og er í eigu fjölda heimamanna. Frá þessu er greint á vefnum www.bb.is.
„Fjármögnunin er búin og nú eru Vestfirskir verktakar að standsetja húsnæðið,“ segir Kristján Torfi Einarsson í samtali við miðilinn, en hann er ásamt Steinþóri Bjarna Kristjánssyni í forsvari fyrir fyrirtækið.
„Við ætlum að vinna saltfisk og við ráðgerum að hefja vinnslu í þessum mánuði. Við verðum um 10 til að byrja með og í haust verðum við vonandi með 15 starfsmenn,“segir Kristján Torfi.
Vinnslan verður til húsa þar sem áður var skelfiskvinnsla og Kambur var einnig með saltfiskverkun í húsinu. Fiskvinnsla Flateyrar er með samning við Byggðastofnun um nýtingu á 300 tonna aflaheimildum stofnunarinnar á Flateyri. Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar aflaheimildir til að bregðast við bráðum byggðavanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Samskonar samkomulag er í gildi meðal annar á Þingeyri og á Suðureyri auk annarra staða á landinu.