Ríkisstjórnin samþykkti í gær nýtt frumvarp sjávarútvegsráðherra um breytingar á stjórn fiskveiða. Frumvarpið hefur ekki verið kynnt opinberlega en samkvæmt því sem fram kemur í Fréttablaðinu í dag eru helstu þættir þess eftirfarandi:
Nýtingarleyfi útgerða verða til 20 ára en uppsegjanleg eftir 5 ár.
Veiðileyfagjald verður tvískipt, annars vegar grunngjald og hins vegar afkomutengt gjald. Þessi gjaldtaka gæti gefið 15 milljarða króna miðað við núverandi árferði.
Strandveiðar, byggðakvóti og línuívilnun verða áfram í gildi en auk þess verður tekinn upp leigukvótapottur sem í verða 20 þús. tonn í upphafi. Þegar og ef þorskaflahámark verður hærra en 202.000 tonn munu 40% af umframkvótanum renna í pottinn en 60% til kvótahafanna. Þetta er grundvallarbreyting því hingað til hafa rétthafar aflaheimilda notið allrar slíkrar aukningar rétt eins og þeir hafa orðið að taka á sig allar skerðingar á aflamarki þegar um það hefur verið að ræða.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins verður framsal aflaheimilda verulega takmarkað en þó ekki með öllu bannað. Öll viðskipti með aflaheimildir eiga að fara í gegnum kvótaþing sem Fiskistofa heldur utan um.
Fram kemur í blaðinu að enn sé togast á um einstök atriði frumvarpsins milli stjórnarflokkanna, svo sem hlutfall afla í leigupott og hvernig farið verði með aflaheimildir í nýjum tegundum eins og makríl.