Félagið Marmeti hefur ákveðið að reisa fullkomið fiskiðjuver í Sandgerði sem kosta mun rúmar 600 milljónir króna. Framleiðslugetan verður um 5.000 tonn og er gert ráð fyrir að þar starfi um 40 manns. Örn Erlingsson, útgerðarmaður frá Keflavík, er á bakvið framkvæmdirnar.
Undirritaður hefur verið fjárfestingarsamningur um ívilnanir vegna þessara framkvæmda í samræmi við lög þar að lútandi. Á vef atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins lýsir Steingrímur J. Sigfússon ráðherra ánægju sinni með þessi áform.
,,Þá fagna ég því sérstaklega að hér er á ferðinni fjárfestingarsamningur um ívilnanir við íslenskt fyrirtæki en þess misskilnings hefur gætt að lögin um ívilnanir vegna nýfjárfestinga og samningar sem gerðir eru á þeim grundvelli standi aðeins erlendum fjárfestum til boða, en svo er að sjálfsögðu ekki eins og undirritunin hér í dag sýnir. Ég treysti því að fleiri slíkir ívilnanasamningar komi í kjölfarið enda eru þeir öflugt verkfæri til að liðka fyrir nýfjárfestingum og uppbyggingu,“ segir ráðherrann.