Framleiðsla er hafin hjá fiskvinnslunni Marmeti ehf. í Sandgerði. Marmeti er nýtt og fullkomið fiskvinnslufyrirtæki, að því er segir í nýjustu Fiskifréttum sem koma út í dag.

Byggt var nýtt 2.500 fermetra hús í Sandgerði undir starfsemi Marmetis og keyptar nýjar vinnslulínur og búnaður af fullkomnustu gerð. Heildarfjárfesting við verkið er rúmar 600 milljónir króna.

Það eru ávallt mikil tíðindi þegar ráðist er í að hanna og byggja fiskvinnsluver alveg frá grunni sem uppfyllir óskir kröfuhörðustu kaupenda beggja vegna Atlantsála . Örn Erlingsson útgerðarmaður er aðaleigandi Marmetis.

Fjöldi fyrirtækja á Suðurnesjum komu að verkinu. Verkefnastjórnun, eftirlit og ráðgjöf var í höndum RISS hönnunar og ráðgjafar. Verkfræðistofan Verkmáttur hannaði húsið. Aðalverktaki var Bragi Guðmundsson ehf.

Í fiskvinnslunni er nýr lausfrystir frá Frigoscandia JBT. Um er að ræða tæki sem getur bæði lausfryst afurðir og kælt þær niður með svokallaðri ofurkælingu.

Vinnslan hjá Marmeti er vel búin nýjustu tækjum og vinnslulínum frá innlendum framleiðendum.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.