Nýtt “stríð” gæti verið í uppsiglingu við Falklandseyjar því Argentína hefur hótað að herða eftirlit með meintum ólöglegum veiðum spánskra skipa á þessum slóðum, að því er fram kemur á vef Seafood Source. Árið 1982 braust út stríð milli Argentínu og Bretlands um yfirráð yfir Falklandseyjum sem lauk með sigri Breta sem kunnugt er. Árið 1989 sömdu Bretland og Argentína um að leggja til hliðar álitaefnið um fullveldi eyjanna.

Sendiherra Argentínu í Madrid á Spáni hefur sent samtökum úthafsveiðiskipa (Aetinape) í Vigo bréf þar sem áréttað er að eftirlit með spánskum fiskiskipum sem veiði við Falklandseyjar heyri undir Argentínu. Þar segir ennfremur að Falklandseyjar, Suður-Georgíueyjar, Suður-Sandwicheyjar og nálæg hafsvæði séu óaðskiljanlegur hluti af argentínskri lögsögu.

Sendiherrann segir að spánsk skip séu þannig að ólöglegum veiðum á þessum slóðum í Suður-Atlantshafi. Þau hafi ekki tilskilin veiðileyfi frá argentínskum stjórnvöldum og það sé skylda Argentínu að koma í veg fyrir þessar ólöglegu veiðar.

Í bréfinu er einnig minnt á að spánsk stjórnvöld hafi verið upplýst um ástandið oftar en einu sinni í því augnamiði að þau kæmu sjálf í veg fyrir ólöglegar veiðar spánskra skipa.