Styttir viðbragðstímann og getur borið allt að 60 manns

Björgunarsveitinni Ársæli í Reykjavík var á laugardag afhent nýtt björgunarskip. Skipið er smíðað í skipasmíðastöðinni Kewatec í Finnlandi, með ganghraða allt að 32 sjómílum, knúið áfram af 2 öflugum Scania dísilvélum og snigildrifum. Skipið, líkt og systurskip þess, er hlaðið nútíma tæknibúnaði, hitamyndavél, botnsjá ásamt því að aðbúnaður áhafnar er allur miklu betri en í eldri skipum félagsins. Um leið og skipið var afhent var skrifað undir samning milli Landsbjargar, björgunarbátasjóðsins á Rifi og Kewatec um smíði fjórða skipsins sem verður afhent í lok næsta árs til Björgunarsveitarinnar Lífsbjargar á Rifi.

Þriðja skipið

Jóhannes Briem er þriðja björgunarskipið af þessari stærð sem hefur verið afhent björgunarsveitum innan Landsbjargar. Það fyrsta var björgunarskipið Þór sem afhent var Eyjamönnum í september 2022 og björgunarskipið Sigurvin var afhent Siglfirðingum í mars á þessu ári. Samningur er milli Landsbjargar og ríkisstjórnar Íslands um að ríkið greiði helming í fimm skipum. Hvert þeirra kostar nærri 300 milljónum króna. Landsbjörg hefur uppi áætlanir um að endurnýja öll 13 björgunarskip landsins sem eru flest öll eru komin á fimmtugsaldurinn og fengust nánast gefins frá konungslegu björgunarsveitinni á Englandi á sínum tíma.

Nr. 805 í smíðaröðinni

Jóhannes Briem er 17 metra langt skip. Skipið er númer 805 í smíðaröðinni hjá Kewatec með þessu skrokklagi og vélbúnaði. Skrokkurinn er úr áli og það er búið tveimur öflugum utanborðsmótorum. Ganghraði er allt að 32 hnútar. Til samanburðar er hámarks ganghraði núverandi björgunarskips, Ásgríms S. Björnssonar, sem smíðað var árið 1978, um tíu hnútar. Jóhannes Briem verður með sex manna áhöfn og rúmar allt að 60 manns. Þess má geta að unnið er að samkomulagi milli Landsbjargar og Tækniskólans um að nýju björgunarskipin verði að hluta til nýtt sem skólaskip þar sem nemendur hafa aðgang að allri nýjustu tækni í stað þess að sú kennsla fari einungis fram í hermum. Samstarfið muni síðan leiða hugsanlega til einföldunar á mönnun björgunarskipanna þegar kemur að sérhæfðum skipstjórnarstörfum.

Jóhannes Briem er 17 metra langur, skrokkur úr áli og léttur og hraðskreiður.
Jóhannes Briem er 17 metra langur, skrokkur úr áli og léttur og hraðskreiður.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Stækka farsvæðið verulega

Tíðindamaður Fiskifrétta fór um skipið og hitti þar Alexander Pálma Oddsson, formann Björgunarsveitarinnar Ársæls, og Björn Jóhann Gunnarsson, verkefnisstjóra sjóbjörgunar hjá Landsbjörg. Þeir hafa fylgst grannt með framvindu smíði björgunarskipsins í Finnlandi og voru í sjöunda himni með að það væri nú hingað komið. Skipið er hið glæsilegasta og vegna þess hve öflugt það er að vélarafli og öllum aðbúnaði stækkar það til muna björgunar- og leitarsvæði Björgunarsveitarinnar Ársæls.

Alexander Pálmi segir þessi nýju skip stækki farsviðið verulega og nefnir sem dæmi um það að nýr Jóhannes Briem geti hæglega sinnt útköllum á Arnarstapa og jafnvel á norðanverðu Snæfellsnesi. Dæmi um þetta er skip sömu gerðar, nýja björgunarskipið Þór í Vestmanneyjum, sem var með þeim fyrstu á vettvang til að leita sjómanns sem féll útbyrðis af línuskipi út af Garðskaga síðastliðinn vetur.

Gengur erfiðlega að fjármagna

Björgunarsveitin Ársæll fer nýjar leiðir til að fjármagna sinn hluta af björgunarskipinu en það er kostnaður sem nemur tugmilljónum króna. Boðið er upp á nokkurs konar nafnaleik þar sem nöfn styrkjenda eru letruð inn í stafina í nafn skipsins.

„Það verður að segjast eins og er að það hefur ekki gengið of vel að safna fyrir nýju skipunum. Þetta eru dýr skip sem eru að leysa af Arun Class skipin sem voru hönnuð 1975 og voru smíðuð óbreytt til 1995. Við fengum þessi skip þegar verið var að úrelda þau í Bretlandi og þau eru flest að komast á fimmtugsaldurinn. Ríkið hefur komið mjög rausnarlega til móts við okkur og Sjóvá hefur stutt okkur mjög myndarlega með 140 milljóna kr. styrk,“ segir Björn Jóhann.

Aðstaða skipstjórnarmanna og nýjasta siglingatækni.
Aðstaða skipstjórnarmanna og nýjasta siglingatækni.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Eitt þessara gömlu skipa, Hannes Þ. Hafstein í Sandgerði, er nú vélarvana og þykir ekki svara kostnaði að gera við það. Annað skip á svipuðum aldri, Ásgrímur S. Björnsson, sem nýr Jóhannes Briem leysir nú af hólmi, fer því til Sandgerðis. Hve lengi hann endist er spurning sem fæstir geta svarað.

Tæknitölur

Nafn björgunarskips: Jóhannes Briem eftir einum af heiðursfélögum Björgunarsveitarinnar Ársæls

Tegund: Kewatec SC SAR 17

Heimahöfn: Reykjavík

Útgerð: Björgunarsveitin Ársæll / Slysavarnarfélagið Landsbjörg

Skipanúmer: 3025 TF-IR

Skráð lengd (miðað við sjólínu): Skráningarlengd 15 m

Mesta lengd: Heildarlengd 17 m

Breidd: 4,8 m

Djúprista: 0,997 m

Brúttótonn: 31 t

Smíðaár: 2023

Smíðastaður: Kokkola, Finnlandi

Efni í bol: Ál

Vélar: 2 x Scania DI 13 077 M

Hestöfl: 750 hö / 551 KW

Mesti ganghraði: 32 hnútar

Olíunotkun: 122 l á hvorra vél á 100% afli, um 70 l á 1.800 sn./mín á hvora vél (siglingahraði 23-25 hnútar). 2 x 900 l tankar um borð