Umtalsverðar breytingar verða gerðar á gildandi fiskveiðistjórnunarkerfi og veiðigjöldum nái nýtt kvótafrumvarp fram að ganga. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti væntanlegt frumvarp fyrir þingmönnum stjórnarflokkanna í gærkvöldi.
Þingmenn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks mættu á trúnaðarfund sem Sigurður Ingi boðaði til í kvöld, þar sem efni frumvarpsins var kynnt. Málið hefur ekki verið lagt fyrir ríkisstjórn ennþá og mikill trúnaður hefur ríkt um efni frumvarpsins. Málið hefur verið lengi í vinnslu og á þeim tíma hefur atvinnuveganefnd, stjórnarandstaða og þeim sem eiga hagsmuna að gæta verið haldið upplýstum.
Nýtingarsamningar til 23 ára
Samkvæmt heimildum fréttastofu RÚV eru hinar breiðu línur þó samkvæmt niðurstöðu sáttanefndarinnar, svokölluðu. Settar verða reglur um viðskipti með kvóta, gert er ráð fyrir kvótaþingi og að 5,3% heildarkvóta verði sett í sérstaka potta fyrir byggðakvóta, strandveiðar og leigukvóta. Það er sama hlutfall og nú er og því er ekki verið að stækka þessa potta. Gert er ráð fyrir að gerðir verði nýtingasamningar um aflaheimildir til 23 ára, samkvæmt upplýsingum fréttastofu.
Innheimta veiðigjalda einfölduð
Reynt verður að einfalda mjög álagningu veiðigjalda frá því sem nú er. Eftir því sem fréttastofa kemst næst verða þau eingöngu lögð á útgerðir og eiga að taka mið af verðmæti afla úr sjó. Reynt verður að innheimta veiðigjöld sem fyrst eftir að aflinn kemur úr sjó en ekki er ljóst hve há veiðigjöldin verða. Þó verður gert ráð fyrir lágmarksveiðigjöldum til að standa undir þjónustu hins opinbera við sjávarútveginn. Á fundinum í gærkvöldi var kallað eftir sjónarmiðum stjórnarliða um þessar tillögur og ljóst að þær geta enn tekið breytingum, segir í frétt RÚV .