Fjögurra manna starfshópur á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur undanfarna mánuði unnið að endurskoðun á meðferð og ráðstöfun þeirra aflaheimilda sem ríkið hefur úthlutað sérstaklega til stuðnings byggðum og atvinnu í smærri byggðum landsins.

Rétt fyrir síðustu helgi skilaði hópurinn af sér skýrslu með tillögum og ítarlegri greiningu á atvinnu- og byggðapottunum, sem svo hafa verið nefndir. Samtals eru það 5,3 prósent allra aflaheimilda sem tekin hafa verið frá til stuðnings atvinnu og byggð í sjávarútvegi.

„Þetta eru í raun mikil verðmæti. Þó þetta sé lítill hluti af heildinni, þá eru þetta samt kannski sex til sjö milljarðar á ári, eftir því hvernig þetta er reiknað,“ segir Þóroddur Bjarnason prófessor, sem er formaður hópsins. „Í verðmætum talið er þetta sennilega mesti byggðastyrkur sem ríkið veitir.“

Starfshópurinn leggur til að tilgangurinn með úthlutun úr pottunum verði gerður skýrari og fyrirkomulagið einfaldað í von um að betri sátt geti tekist um framkvæmdina.

Auk Þórodds, formanns hópsins, sátu í honum þau Bergþóra Benediktsdóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra, Gunnar Atli Gunnarsson, aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Þorsteinn Víglundsson alþingismaður. Áslaug Arna Sigurbjörnsdótti alþingismaður sat einnig í hópnum þar til hún varð ráðherra.

Skýr markmið

Þessi 5,3 prósent allra aflaheimilda hafa verið nýtt til ólíkra verkefna sem í meginatriðum falla undir sex flokka, nefnilega strandveiðar, tvenns konar byggðakvóta, línuívilnu og skel- og rækjubætur auk frístundaveiða.

Starfshópurinn leggur til að þessi verðmæti, sem ríkið úthlutar sérstaklega, verði einkum nýtt í tvenns konar tilgangi. Annars vegar til að efla atvinnulíf í dreifðum sjávarbyggðum til framtíðar, hins vegar til að stuðla að fjölbreytni og nýliðun í sjávarútvegi.

Þessi markmið þurfi að útfæra sérstaklega fyrir hvern stað og þau verði skilgreind til sex ára þannig að eftir þann tíma verði hægt að skoða árangurinn.

„Ef þetta væru beinharðir peningar þá yrði það aldrei gert öðru vísi en það væru gerðir samningar og það væru skýr markmið, það væri eftirfylgd og mat á árangri. Hugmyndin er að það sama eigi að gilda um þetta,“ segir Þóroddur. „Úr því ríkið er að úthluta þessum verðmætum þá þarf að liggja fyrir skýrt hver eru markmiðin og hvernig mælirðu þau.“

Hann tekur sem dæmi strandveiðar og línuívilnun.

„Ef menn segja til dæmis að strandveiðar séu til að auka nýliðun, þá verða menn að útskýra hvað er nýliðun og hvernig mælum við hana. Eftir sex ár geti menn þá sagt hversu mikla nýliðun fékkst fyrir hversu mikil verðmæti. Og þá geta menn metið það,“ segir hann.

Hægt að gera betur

„Sama með línuívilnun, að ef markmiðið með henni er að skapa störf við handbeitingu, þá verði menn að geta sagt hversu mikil verðmæti voru sett í að skapa hversu mörg störf. Þetta sé þá hægt að meta.“

Byggðakvótinn, bæði sá almenni og sá sértæki, verði nýttur til að efla atvinnulíf á stöðunum, en strandveiðar og línuívilnun til þess að efla nýliðun og fjölbreytni. Þar á ofan verði gert ráð fyrir bæði tilraunaverkefnum í sjávarútvegi og varasjóði vegna óvæntra áfalla.

„Ef þú horfir á minni sjávarbyggðirnar þá eru þær ekki svo margar,“ segir Þóroddur. „Með þessum verðmætum ættum við að geta staðið okkur betur en við erum að gera. Sú lausn getur samt ekkert komið frá einhverri nefnd. Það verður að vera fólkið á þessum stöðum og fólkið í atvinnulífinu og sjávarútveginum sem finnur lausnir á hverjum stað.“

Landssamband smábátaeigenda hefur gagnrýnt tvennt í þessum tillögum. Annars vegar séu það vonbrigði að línuívilnun verði ekki efld, heldur sé þvert á móti gert ráð fyrir að hún geti smám saman runnið inn í almennan byggðakvóta. Hins vegar séu það vonbrigði að byggðakvóti verði ekki eyrnamerktur veiðum dagróðrabáta.

Fjórar megintillögur

Tillögurnar eru í tólf liðum, þar af fjórar sem hópurinn metur veigamestar en aðrar eru veigaminni.

Fyrsta tillagan gengur út á að 5,3 prósentin verði strax tekin til hliðar við úthlutun hvers árs í stað þess að þau séu dregin frá aflamarki hvers skips.

Í tillögu 2 er skýrari skilgreining á tilgangi atvinnu- og byggðakvóta, sem dregin verði saman í einni lagagrein.

Þriðja tillagan snýst um að innbyrðis skipting aflaheimildanna verði fest til sex ára, en áfram verði þó möguleiki á að færa ónýttar heimildir milli aðgerða og milli fiskveiðiára.

Fjórða tillagan lýtur svo að því að við úthlutun verði lög rík áhersla á stuðning við dreifðar sjávarbyggðir.

Dreifðar sjávarbyggðir

Hugtakið dreifðar sjávarbyggðir er í ákveðnu lykilhlutverki í skýrslunni. Þar er stuðst við minnisblað frá Byggðastofnun þar sem dreifðar sjávarbyggðir eru skilgreindar út frá fjórum þáttum: að þær standi við sjávarsíðuna, að fiskveiðar og/eða fiskvinnsla hafi verið stunduð þar síðustu 30 árin, að þær séu utan áhrifasvæðis höfuðborgarsvæðisins og íbúar séu færri en 1000.

„Alls uppfylla 35 bæjarfélög með samtals 12.568 íbúum þessi viðmið,“ segir í skýrslunni.

Síðan er hugmyndin að einskorða úthlutun við byggðakjarna samkvæmt skilgreiningu Hagstofunnar. Einnig er ákveðið að líta framhjá suðvesturhorni landsins, enda sé það áhrifasvæði höfuðborgarinnar, og er þá miðað við svæðið vestan Hvítár í Árnessýslu og sunnan Hvítar í Borgarfirði.

Þetta tvennt skapar þó ákveðin vandamál, sem taka þarf afstöðu til, því byggðakvóta er nú úthlutað til fjögurra staða sem ekki teljast vera byggðakjarnar og síðan er byggðakvóta úthlutað til sex staða sem eru á áhrifasvæði höfuðborgarinnar.