Sameining líftæknifyrirtækisins Zymetech og sænska líftæknifyrirtækisins Enzymatica árið 2016 efldi verulega samkeppnishæfni fyrirtækjanna og möguleika þeirra til vaxtar. Ágústa Guðmundsdóttir, rannsóknastjóri hjá Zymetech, ræddi um framtíðarsýn fyrir sjávarlíftækni á Íslandi út frá langri reynslu fyrirtækisins á Sjávarútvegsráðstefnunni í Hörpu í byrjun nóvember.

Zymetech er eitt elsta starfandi líftæknifyrirtæki landsins, stofnað árið 1999. Fyrirtækið framleiðir ensím úr þorskslógi og nýtir í verðmætar lækningavörur fyrir alþjóðamarkað.

Ágústa sagði frá starfsemi fyrirtækisins í erindi sem hún kallaði Lækningamáttur þorsksins – Sjávarlíftækni á Íslandi.

Byrjaði hún á því að þakka fyrri ræðumanni í málstofunni um Rannsóknir og þróun í sjávarútvegi, Sigurði Björnssyni, sviðsstjóra Rannís, en að hennar sögn hefði lítið farið fyrir líftæknifyrirtækinu Zymetech ef ekki hefði komið til stuðningur Tækniþróunarsjóðs og AVS – rannsóknasjóðsins, og vildi þar leggja áherslu á hverju slíkir sjóðir geta áorkað.

Stuðningur þeirra hafi komið fyrirtæki hennar í gegnum fyrstu skref nýsköpunar, en þakkaði einnig fyrirtækinu Skinney-Þinganesi fyrir að útvega hráefni til úrvinnslu í gegnum árin. Kristallaðist árangur nýsköpunarfyrirtækja í orðum hennar; stuðningur eða samvinna sjóða, háskóla og fyrirtækja við uppbyggingu sem grundvallast á góðri hugmynd.

Einkaleyfi nauðsynlegt

Forsendur fyrir sköpun verðmæta með lækningavörum eru margvíslegar, sagði Ágústa. Nefndi hún að í fyrsta lagi þurfi að þróa áhugaverða og söluvænlega vöru sem byggir á grunn- og klínískum rannsóknum. Einkaleyfi er algjörlega nauðsynlegt, því öðruvísi verður ekki höfðað til stóru lyfjafyrirtækjanna sem hafa mikinn áhuga á lækningavörum.

„En þau gera ákveðnar kröfur. Þú kemst ekki í gegn þar nema hafa allt þetta í lagi,“ sagði Ágústa og bætti við að skráning og gæðamál verði að vera fyrsta flokks og varan hafi góða markaðsmöguleika.

„Lækningavörur eru næsti bær við lyf, án þess að um lyf sé að ræða. Hins vegar geta læknar sumstaðar ávísað lækningavörum, t.d. í Bandaríkjunum. Þá eru það tryggingarfyrirtæki sem taka þátt í kostnaði lækningavara,“ sagði Ágústa.

Erfið fjármögnun

Undanfarin ár hefur megin áhersla Zymetech verið á klínískar rannsóknir á munnúða gegn kvefi og skráningu samkvæmt nýjum reglugerðum Evrópusambandsins.

„Þetta er afar kostnaðarsamt ferli en við höfum einbeitt okkur að þessu ferli eftir sameiningu við sænska líftæknifyrirtækið Enzymatica árið 2016. Við höfum unnið með þeim í tíu ár en þó með okkar einkaleyfi. Það var mjög erfitt að fjármagna áframhaldandi vöxt fyrirtækisins hérna á Íslandi. Allir sem vinna við nýsköpun þekkja það og því nauðsynlegt að leita að erlendu fjármagni. Enzymatica var skráð á Nasdaq First North markaðinn og hafði gott aðgengi að fjármagni í Svíþjóð. Þeir höfðu sömuleiðis þekkingu á markaðssetningu,“ sagði Ágústa.

Skipta með sér verkum

Ágústa sagði frá því að á þeim 20 árum sem liðin eru frá stofnun Zymetech hafi langt yfir 100 manns komið að rannsóknar- og þróunarverkefnum fyrirtækisins. Þar skuli bæði nefna innlenda og erlenda sérfræðinga og nemendur í stórum stíl; meistara- og doktorsnemar.

Þegar samstarf við sænska fyrirtækið hófst lagði Zymetech þeim hluta starfseminnar sem laut að þróun snyrtivara. Það var gert fyrir orð Svíanna sem sögðu mikilvægt að áherslan væri öll lögð á þróun lækningavaranna, ef árangur ætti að nást. Þróun snyrtivara þyrfti að koma síðar eftir að nauðsynlegum árangri hafði verð náð á sviði lækningavara.

„Þetta hefur verið staðan hjá okkur í þrjú ár,“ sagði Ágústa en hjá Zymetech, auk rannsókna og þróunar, hefur líka verið framleiðsla, gæðamál og minni klínískar rannsóknir. Sænska fyrirtækið annast hins vegar viðskiptaþróun, markaðssetningu og með öflugan hóp sem annast umsjón á skráningum og reglugerðum enda eru lækningavörur háðar ströngum reglum líkt og um lyf væri að ræða. Flækjustigið er ekki eins mikið, en útheimtir engu að síður óhemju tíma.

Líkt eftir vörnum fiska

Varan sem málið snýst um hjá fyrirtækjunum er vel þekkt – PreCold munnúði gegn kvefi. Þar er líkt eftir náttúrulegri vörn fiska gegn veirusýkingum en slím í roði fiska inniheldur m.a. efnið trypsín sem veitir vörn gegn sýkingum. Sama efni gegnir einnig hlutverki í vörnum manna gegn sýkingum. Með rannsóknum hefur verið staðfest að varan er örugg, sagði Ágústa og virkni hennar einnig með klínískum rannsóknum.