Snjókrabbi gæti orðið næsta nýstirni í norskum sjávarútvegi, að því er fram kemur í nýrri skýrslu norskra sérfræðinga. Frá þessu er greint í Fiskeribladet/Fiskaren.

Ekki er langt síðan norsk skip hófu tilraunaveiðar á snjókrabba í Barentshafi. Á árinu 2015 fékkst sæmileg reynsla af þessum veiðum á ársgrundvelli. Vart hefur orðið við snjókrabba í vaxandi mæli norður af Noregi og hefur hann fundist allt norður að Svalbarða.

Samkvæmt spá sérfræðinganna gæti hugsanleg veiði á sjókrabba orðið 50 þúsund til 170 þúsund tonn á næstu 15 árum. Miðað við 30 króna kílóaverð (430 ISK) gæti þetta þýtt um 1,5 til 5,1 milljarð í aflaverðmæti (21 til 73 milljarða ISK). Nái þetta fram að ganga gæti umsetning í norskum sjávarútvegi aukist um 6 til 22%.

Í skýrslunni eru bornar saman veiðar á snjókrabba og kóngakrabba. Kóngakrabbi er mun stærri og er fluttur út ferskur í vaxandi mæli. Gert er ráð fyrir að afli snjókrabba verði 50 sinnum meiri en kóngakrabba. Flestir snjókrabbanna eru undir 1 kílói á þyngd og því má búast við að aðallega verið lagt upp úr magni við þessar veiðar.

Ólíkt snjókrabbaveiðum við Kanada og Bandaríkin, þar sem snjókrabbinn lifir nálægt landi, heldur snjókrabbinn sem Norðmenn veiða sig norðarlega í Barentshafs. Skipin veiða því krabbann við krefjandi aðstæður langt frá landi. Á síðasta ári völdu flest skip sem þessar veiðar stunda að vinna krabbann um borð.