Stærsta sjávarútvegssýning heims, Seafood Expo Global, hefst í Brussel í Belgíu á morgun og líkt og mörg undanfarin ár munu starfsmenn markaðssviðs HB Granda kynna þar starfsemi og afurðir félagsins. Þetta verður í 11. sinn sem HB Grandi tekur þátt í sýningunni í Brussel undir eigin vörumerki en að þessu sinni verður félagið með eigin sýningarbás.

Aukin umsvif HB Granda urðu til þess að félagið þurfti að þessu sinni stærra sýningarrými en hægt var að útvega á sameiginlegum sýningarbási Íslands. Fyrirtækið er því með sitt eigið sýningarsvæði sem er tvöfalt stærra en það hefur haft yfir að ráða undanfarin ár. Sýningarbásinn er hannaður af Íslensku auglýsingastofunni en hollenskt fyrirtæki sér um uppsetningu hans. Til marks um hin auknu umsvif hvað varðar vöruframboð má nefna að afurðum í hefðbundinni bolfiskvinnslu hefur fjölgað með tilkomu fjárfestinga í nýjum vinnslubúnaði, s.s. vatnsskurðarvél fyrir flök og formunarvél og sömuleiðis hafa bæst við afurðir frá dótturfyrirtækjunum Vigni G. Jónssyni hf. og þurrkaðar afurðir eftir kaup á Laugafiski ehf.

Óhætt er að segja að hugur fylgi máli því alls munu 24 starfsmenn HB Granda standa vaktina í Brussel á meðan Seafood Expo Global stendur yfir. Sýningin verður formlega opnuð 22. apríl nk. og stendur hún í þrjá daga.

Þetta kemur fram á vef HB Granda.