Í gær var nýsmíði Ísfélagsins í skipasmíðastöðinni ASMAR í borginni Talcahuano í Chile sjósett og gefið nafnið Heimaey VE 1. Skipið sem er af nýrri kynslóð uppsjávarskipa er 71,1 metra langt og 14,40 metra breitt.

Burðargeta þess er rúmlega 2.000 tonn í 10 tönkum, sem eru með öflugri RSW-kælingu. Skipið verður útbúið til nóta- og flottrollsveiða.  Við hönnun þess var tekið mið af því að orkunotkun yrði eins hagkvæm og kostur er með tilliti til siglinga og veiða.  Meðferð aflans verður eins og best verður á kosið og aðbúnaður áhafnar til fyrirmyndar.  Skipið verður afhent fullbúið í mars á næsta ári.

Dagurinn var einnig mikill gleðidagur í skipasmíðastöðinni ASMAR því að Heimaey VE 1 er fyrsta nýsmíðin sem er sjósett þar eftir að miklir jarðskjálftar skóku Chile í lok febrúar í fyrra.  Í kjölfar jarðskjálftans skall mikil flóðbylgja á strönd landsins sem olli manntjóni, eyðileggingu og gífurlegu tjóni í skipasmíðastöðinni og færði hana í kaf.