Á slaginu klukkan 13 í dag lagðist nýr Víkingur AK-100 í eigu HB Granda að bryggju í heimahöfn sinni á Akranesi. Skipinu var siglt áleiðis frá Tusla í Tyrklandi laugardaginn 5. desember og gekk heimsiglingin eins og í sögu undir stjórn Alberts Sveinssonar skipstjóra. Frá þessu er skýrt á vef Skessuhorns.

Skipið kom að bauju utan við Skagann í nótt en eftir tollskoðun í morgun var því fylgt til hafnar af lóðsbátum Faxaflóahafna. Fjölmenni var saman komið á bryggjunni til að heilsa nýja skipinu.

Næstkomandi mánudag klukkan 14 verður hátíðleg samkoma í við skiptið þar sem það verður blessað og formlega gefið nafn. Þá gefst íbúum og öllum áhugasömum kostur á að skoða skipið.