Nýr sjávarklasi á norðvesturströnd Bandaríkjanna tekur til starfa á morgun. Pacific Northwest Ocean Cluster tekur þá formlega til starfa í húsakynnum Marel í Seattle. Þetta er þriðji systurklasi Sjávarklasans sem opnaður er í Bandaríkjunum en fyrir eru klasar í Massachusetts og Maine.

Frá þessu segir í frétt Íslenska sjávarklasans. Þar segir:

Í fyrirsvari fyrir klasann er Lára Hrönn Pétursdóttir sjávarútvegsfræðingur með 15+ ára sjávartengda reynslu meðal annars sem skipstjóri, stýrimaður og háseti. Lára kemur af fjölskyldu frumkvöðla í sjávarútveginum og hefur sjálf ásamt eiginmanni sínum, þrætt veg frumkvöðla á sviði upplýsingatækni og sjávarútvegs. Auk þess koma að klasanum fjöldi fyrirtækja og stofnana í Bandaríkjunum og á Íslandi. Upphaflegir bakhjarlar þessa verkefnis á Íslandi eru Íslandsbanki, Marel og Icelandair.

Eitt stærsta verkefni nýja klasans verður að hlúa að nýjum sprotafyrirtækjum sem tengjast sjávarútvegi og annarri hafsækinni starfsemi. Á norðvesturströnd Bandaríkjanna eru mörg fyrirtæki sem standa framarlega í sjávarútvegi í heiminum. Með stofnun klasans er ætlunin að vinna að því að tengja betur saman hefðbundinn sjávarútveg við bæði háskóla og nýsköpunarfyrirtæki eins og lögð hefur verið áhersla á í öðrum klösum.

Lára Hrönn segir að á svæðinu sé mikill áhugi á nýsköpun sem tengist sjávarútvegi, til dæmis er stórt samstarfsverkefni Washington fylkis og Port of Seattle, Maritime Blue, sem hefur það markmið að stórefla haftengda starfsemi í fylkinu og þaðan kemur mikil velvild og áhugi gagnvart sjávarklasanum.

„Það eru líka tækifæri til að þess að efla samstarf fyrirtækja í öllum klösunum, bæði innan Bandaríkjanna og á Íslandi og verður það eitt af markmiðum okkar,“ segir Lára Hrönn.