Hið nýja og glæsilega uppsjávarskip Ísfélagsins, Sigurður VE 15, lagði af stað á fyrradag áleiðis til Vestmannaeyja.  Skipið hefur verið í smíðum í Tyrklandi en undanfarna daga hafa síðustu prufukeyrslur verið gerðar á skipinu með áhöfn þess.

Áætlað er að siglingin taki um tólf sólarhringa og því má reikna með að skipið sigli inn til heimahafnar í kringum 25. júlí, að því er fram kemur á vef Eyjafrétta .

Sigurður VE er 80 metra langur og 17 metra breiður og er afar vel búinn til veiða á uppsjávarfiski s.s. loðnu, síld, makríl og kolmunna. Aðalvélin er 4.500 kW og kæligetan er 2x1.300.000 kcal/klst.

Kælitankar skipsins eru 12 og eru samtals 2.970 rúmmetrar þannig að burðargeta skipsins er mikil og styður hún vel við öfluga landvinnslu félagsins í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn.