Útgerðarfélagið Þórsberg ehf á Tálknafirði fékk á dögunum afhentan nýjan yfirbyggðan, 30 tonna Cleopatra 46B beitningavélarbáta frá Bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði.

Nýi báturinn heitir Indriði Kristins BA og leysir af hólmi eldri, 22 tonna Cleopatra bát með sama nafni sem var seldur til Norðureyrar ehf. á Suðureyri og heitir nú Einar Guðnason ÍS. Skipstjórar á á nýjum Indriða Kristins BA eru bræðurnir Indriði og Magnús, synir Guðjóns Indriðasonar, framkvæmdastjóra Þórsbergs.

„Báturinn hefur reynst vel. Við fengum hann afhentan um síðustu mánaðamót og höfum þegar farið í eina sex róðra. Hvað veiðina varðar þá hefur þetta svona sloppið til en ekkert meira en það. Það hefur verið reitingur en enginn kraftur í þessu. Þetta byrjar ekki af krafti fyrr en janúar-febrúar og miður mars hefur alltaf verið besti tíminn,“ segir Indriði.

Hann segir að veiðarnar hafi víða verið með öðrum hætti en undanfarin ár. Meiri veiði hefur til að mynda verið í september-október en menn eiga almennt að venjast og svo virðist sem einhver færsla hafi orðið í almanakinu. „Þetta er eitthvað sem ég hef tekið eftir og það getur alveg verið að aðstæðurnar séu eitthvað öðruvísi í hafinu,“ segir Indriði.

40 kör

Þórsberg gerði út eldri Indriða Kristins BA í um þrjú ár. Nýi báturinn er stærri, með meiri burðargetu og býður upp á betri meðferð á afla. Auk þess er aðstaða fyrir mannskapinn betri. Nýi báturinn tekur fjörtíu 660 lítra kör í lest. Eldri báturinn var með álkör sem bjóða ekki upp á jafngóða meðferð á afla. Nýi báturinn tekur allt að 20 tonn af fiski í kör í lestina meðan sá eldri bar 12-13 tonn. Aukningin á burðargetunni er því allt að 80%.

„Við stefnum að því að taka alla jafna tvær lagnir. Við erum eina og hálfa áhöfn og fjórir um borð í hverjum túr. Allir eru búsettir hérna fyrir vestan en það væsir svo sem ekkert um mannskapinn hérna um borð ef út í það er farið. Það er vel hægt að búa í bátnum og menn hafa hérna allt til alls. Kvótastaðan er líka bara nokkuð góð hjá okkur. Við erum með einhver tólf til þrettán hundruð þorskígildi.“

Að fram í brælur

Áður var Þórsberg ehf. einnig með vinnslu á Tálknafirði en rekstri hennar var hætt. Öllu er því landað á fiskmarkaði. Indriði segir að verð sem hafi fengist fyrir aflann hafi alveg verið viðundandi til þessa.

Indriði segir að á nýja bátnum sé hægt að vera lengur að fram í brælur en það er ekki verið að fara út í verri veður. Hann segir að hægt sé að láta bátinn ganga tíu mílur þá sé hann líka farinn að eyða mikilli olíu. Með skynsamlegri keyrslu er hann mikið á 8,5-9 mílum á stíminu.

Nýi báturinn er tæpir 14 metrar á lengd og með 880 hestafla Doosan vél. Hann er með vökvadrifnum hliðarskrúfum að framan og aftan. Millidekkið er lokað með aðgreindu dráttarrými. Í bátnum er upphituð stakkageymsla fyrir sex manns, stór borðsalur, salerni og sturta og þvottavél og þurrkari. Svefnpláss er fyrir sex í lúkar í fjórum aðskildum klefum.  Eldhúsið er með öllum nauðsynlegum búnaði eins og eldavél, bakarofni, örbygljuofni, ísskáp og uppþvottavél. Báturinn er útbúinn til lengri útiveru ef þarf og aðbúnaður um borð fyrir áhöfn í takt við það.