,,Þrátt fyrir að enginn vilji segja það upphátt yrði það kraftaverki ef samningar næðust að þessu sinni,“ segir í Fiskaribladet/Fiskaren í Noregi í dag, en þar kemur fram að samningsaðilar í makríldeilunni muni hittast næsta sunnudag.
Blaðið bendir á að Alþjóðahafrannsóknaráðið hafi lagt til minni makrílkvóta á næsta ári en yfirstandandi ári. Þetta bindi hendur Evrópusambandsins hvað varðar það að semja um kvótaaukningu á sama tíma og það undirbúi viðskiptaþvinganir gegn Íslandi og Færeyjum fyrir óábyrgar fiskveiðar. ESB geti ekki leyft sér að hegða sér á óábyrgan hátt með samningum á sama tíma og það undirbúi sjálft refsiaðgerðir gegn öðrum fyrir það sama.
Audun Maråk talsmaður samtaka norskra útvegsmanna viðurkennir að deilan hafi harðnað og ennþá erfiðara verði að ná samkomulagi en fyrr. Hann segir mikilvægt fyrir Norðmenn í þessari stöðu að hrinda af stað eins fljótt og auðið sé auknum makrílrannsóknum til þess að fá öruggari, réttari og betri mynd af stærð makrílstofnsins.