Kirkella, nýr 86 metra langur frystitogari í eigu UK Fisheries í Bretlandi, hefur verið afhentur í Tersan skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. Skipið kostar 35 milljónir evra að því er fram kemur á sjávarútvegsvefnum Undercurrentnews.com. Það er jafnvirði 5,3 milljarða íslenskra króna.

UK Fisheries er að hálfu í eigu dótturfélags Samherja í Skotlandi (Onward Fishing) og að hálfu í eigu Parlevliet & Van der Plas (P&P) í Hollandi. Hollenska fyrirtækið er að auki með í smíðum annan sams konar togara hjá sömu skipasmíðastöð sem afhentur  verður eftir þrjá mánuði.

Vinnslubúnaður í skipin tvö var smíðaður í Slippnum á Akureyri og fluttur í gámum til Tyrklands. Áður hefur komið fram að heildarverð fyrir búnaðinn í bæði skipin nam um 600 milljónum króna.