Norðmenn og Færeyingar hafa skrifað undir nýjan samning um gagnkvæmar veiðiheimildir í lögsögum ríkjanna tveggja en slíkt samstarf rofnaði meðan ósamið var í makríldeilunni.

Samkvæmt samningnum mega Norðmenn veiða 1.900 tonn af löngu/blálöngu, 1.600 tonn af keilu, 500 tonn af ufsa og 800 tonn af öðrum tegundum í færeyskri lögsögu. Að auki fá þeir 5.140 tonna makrílkvóta, en hann má veiða hvort heldur sem er í færeyskri, norskri eða alþjóðlegri lögsögu. Þá fá Norðmenn aðgang að færeyskri lögsögu til að veiða allt að 80.000 tonn af kolmunna af sínum eigin kvóta.

Í staðinn fá Færeyingar kvóta í Barentshafi: 4.121 tonn af þorski, 900 tonn af ýsu, 800 tonn af ufsa og 200 tonn af öðrum tegundum.