Þó stutt sé liðið frá því að Síldarvinnslan í Neskaupstað tók landtengingarbúnað í notkun er ljóst að fyrstu skrefin lofa afar góðu. Hingað til hafa nýjustu skipin í uppsjávarflotanum; Börkur NK og Vilhelm Þorsteinsson EA, getað nýtt búnaðinn. Unnið er að því að koma slíkum búnaði fyrir í Beiti NK og gert ráð fyrir að því verði lokið fyrir áramótin.

Síldarvinnslan greinir frá því að frá því að búnaðurinn var tekinn í notkun í september og til mánaðamóta nóvember-desember hafa skipin verið landtengd í 24 daga. Á þessu tímabili hafa þau notað rúmlega 133.000 kílóvattstundir við landanir. Ef þau hefðu notað olíu í stað raforkunnar hefðu þau brennt 33.461 lítrum af olíu.

Öll skip tengd

Þegar öll uppsjávarskip sem landa í Neskaupstað verða komin með tilheyrandi búnað er gert ráð fyrir að olíunotkun minnki um að minnsta kosti 300.000 lítra á ári.

Grétar Örn Sigfinnsson, rekstrarstjóri útgerðar Síldarvinnslunnar, segir í frétt Síldarvinnslunnar að vel hafi gengið að taka landtengingarbúnaðinn í notkun. „Þegar skipin koma til löndunar er bara sett í samband og allt virkar eins og því er ætlað að gera. Þetta er afskaplega jákvætt því að með landtengingunni er notaður umhverfisvænn innlendur orkugjafi í staðinn fyrir olíu,“ segir Grétar.

Nú er unnið að stækkun fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað og gert ráð fyrir uppsetningu landtengingarbúnaðar sem nýtist líkt og nú er við löndun til manneldisvinnslunnar.