Nýr Börkur NK, sem Síldarvinnslan í Neskaupstað hefur keypt, kom í fyrsta sinn til heimahafnar í gærmorgun.

Skipið var smíðað í Noregi árið 2000 og er búið öflugum kælibúnaði í 10 RSW tönkum. Burðargeta skipsins er 1.850 tonn. Skipstjórar á skipinu verða Sturla Þórðarson og Sigurbergur Hauksson, 8 stöður verða á skipinu og tveir menn um hverja stöðu. Skipið mun koma í staðinn fyrir eldra skip félagsins með sama nafni en það hefur fengið nafnið Birtingur NK-124. Allur aðbúnaður starfsmanna er mjög góður og verður hver maður með sér klefa.

,,Með tilkomu þessa skips er Síldarvinnslan hf. búin að endurnýja uppsjávarflota sinn um 72 ár á sl. sex árum. Við erum komin með öflug skip sem falla vel að þeim markmiðum okkar að hámarka virði þeirra aflaheimilda sem við höfum aðgang að.

Við ráðumst í þessa fjárfestingu með framtíðarþróun félagsins í huga og trúum því að stjórnvöldum muni bera gæfa til að lenda deilumálum um stjórn fiskveiða með hagsmuni okkar allra að leiðarljósi, segir Gunnþór Ingvason,“ framkvæmdastjóri í frétt sem birtist á heimasíðu Síldarvinnslunnar.