Guðbjörg GK 9, nýr 13 metra langur og 5,5 metra breiður stál- og álbátur, sem Skipasmíðastöð Njarðvíkur lét smíða í Tyrklandi fyrir útgerðarfélagið og fiskvinnsluna Stakkavík í Grindavík, var sjósettur í gær. Framundan eru ýmsar prófanir á bátnum en stefnt er að því að hann verði afhentur nýjum eigendum innan tíðar.

Ráðgarður Skiparáðgjöf hannaði bátinn en fyrirtækið hannaði m.a. einnig Háey, sem er með svipuðu skrokklagi en sá bátur er úr trefjaplasti. Mestur hluti búnaðar í Guðbjörgu GK er keyptur á Íslandi af fyrirtækjum eins og Sónar, MD-vélum, Aflhlutum, HT, Vatn & veitum, Marás, Kælingu, Landvélum, Stýrisvélaþjónustunni, Öryggismiðstöðinni og Micro. Búnaðurinn í bátinn kostar á annað hundrað milljónir króna.

Upphaflega stóð til að báturinn héti Margrét GK og hefur verið fjallað um smíði hans í Fiskifréttum undir því nafni. Kaupandi bátsins ákvað hins vegar á seinni stigum að hann bæri nafnið Guðbjörg GK 9.