Hið nýja strandferðaskip Baldur hélt frá Reykjavík síðdegis í dag og er væntanlegt til Stykkishólms klukkan 21 í kvöld, að því er fram kemur á vefsíðu Sæferða. Nýi Baldur mun taka við af gamla Baldri strax á morgun og fara í sína fyrstu áætlunarsiglingu yfir Breiðafjörðinn þann daginn.

Sama dag mun gamli Baldur hefja siglingu sína til nýrra heimkynna á Grænhöfðaeyjum eftir rúmlega átta og hálfs árs þjónustu á Breiðafirðinum. Sæferðir eiga að afhenda skipið nýjum eigendum í Oporto í Portúgal.

Sæferðir bjóða íbúum Stykkishólms og öðrum áhugasömum að koma um borð í nýja Baldur í kvöld til þess að skoða skipið og þiggja veitingar, segir í vef fyrirtækisins.