Á síðustu árum hafa miklar tækniframfarir orðið í sjávarútvegi, nýjar vinnslulínur sem auðvelda störfin, nýstárleg ofurkælitækni sem fer betur með hráefnið, aukin sjálfvirkni og betri aðbúnaður um borð í fiskiskipum.
Tækifærin virðast óþrjótandi en Hjörvar Kristjánsson, verkefnisstjóri nýsmíða hjá Samherja hf., segir nýjungarnar þó reynast misvel. Þær séu ekki alltaf raunhæfar.
„Það er ýmislegt í boði, en þetta eru oft rosalega dýrar fjárfestingar,“ segir Hjörvar.
„Það er alltaf verið að koma til okkar með mikið af nýjungum, sérstaklega varðandi vinnslur og slíkt, en þær eiga oft ekki heima í skipum, bæði með tilliti til kostnaðar og afkasta. Þær eru bara of flóknar.“
Hann segist þó engan veginn vilja gera lítið úr öllu því sem er að gerast í þessum málum. Menn séu að gera virkilega góða hluti sem víða hafi reynst vel.
„Við höfum samt ákveðið að fara aðeins öðru vísi leið, og erum örugglega ekki að nota minni pening í þetta.“
Ennþá er gert að fiskum
Samherji hefur beint eða óbeint tengst 21 nýsmíðaverkefni á undanförnum fimm til sex árum, en þá eru talin með sameiginleg verkefni með öðrum fyrirtækjum. Í öllum þessum skipum er að finna margvíslegar nýjungar sem létta störfin, tryggja betri orkunýtni og bæta meðhöndlun hráefnisins.
„Við viljum náttúrlega sjá léttari störf um borð, meiri verðmæti og framleiðni,“ segir Hjörvar.
„En við erum ennþá með mannfrekustu verkin um borð, eins og að gera að fiskum. Það eru til vélar en þær hafa ekki náð fótfestu. Þannig að við erum ennþá að raða i kör og ennþá að gera að.“
Hjörvar ræddi þessi mál á ráðstefnu um framtíð siglinga, sem haldin var í Sjómannaskólanum 27. september í tilefni af 70 ára afmæli Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, IMO. Siglingaráð og Samgöngustofnun stóðu fyrir ráðstefnunni.
Tískubylgjur
Þar sagði hann að í sjálfu sér hafi ekki svo mikið breyst í smíði fiskiskipa síðustu 50 til 60 árin. Í flestum aðalatriðum séu skipin nokkurn veginn eins og þau voru þá. Skipin eru enn með gálga að aftan og brú að framan, trollið er tekið inn að aftan og það eru hlerar og þau eru með radar. Meira að segja margar nýjungar í stefnum hafa sést áður.
„Þetta kemur svolítið í tískubylgjum,“ sagði hann. „Stærsta bótin er kannski sú að við erum með betri líkön, erum orðin nákvæmari í fræðunum.“
Meðal þeirra nýjunga sem Samherji hefur verið að setja í nýju skipin eru PM-mótorar, sem gera togvindurnar miklu mýkri en gömlu rafmagnsvindurnar, og svonefndur HSG-búnaður sem gerir skipverjum kleift að lækka snúninginn á skrúfunni niður úr öllu valdi. Með þessu sparast mikið eldsneyti.
„Við erum að verja miklum pening í að vera umhverfisvænir. Við erum að setja dýr kerfi í skipin til að spara eldsneyti. Við erum með næga hvata, ekki bara fjárhagslega heldur líka siðferðislega til að ná eyðslunni niður, en sumt er bara utan marka,“ segir Hjörvar.
Talnagrúsk
Eitt af því sem Hjörvar hefur lagt áherslu á er að auka meðvitund skipstjóra og áhafnar um orkunotkun mismunandi búnaðar um borð í skipunum.
„Skipstjórar eru almennt miklir talnagrúskrarar. Ef við erum með áhugaverðar tölur þá fara þeir að pæla í þessu,“ segir hann.
„Við höfum verið að skipta eyðslunni upp. Það er svo rangt að stilla henni upp sem einni tölu, heldur þarf að sjá hvað þú ert að eyða miklu í eina skrúfu. Hvað kostar þessi túr í frystikerfið, hvað kostar þessi túr í vindukerfið? Hvort ein áhöfn eyddi miklu meira rafmagni í togvinduna en önnur? Við reynum að skoða þessar tölur, erum alla vega að byrja að safna þeim.“