Að undanförnu hafa staðið yfir veiðar á kræklingi í Hvalfirði með sérhönnuðum kræklingaplóg. Aflinn er fluttur norður til Hríseyjar þar sem kræklingurinn er ræktaður áfram þar til hann er söluhæfur á Evrópumarkað.

Báturinn Knolli BA frá Reykhólum hefur frá áramótum stundað veiðar á kræklingi með hollenskum kræklingaplóg innst í Hvalfirði en slíkar veiðar eru nýlunda hér á landi eftir því sem best er vitað.  Kræklingnum er landað á Akranesi. Hann er síðan fluttur landleiðina til Norðurskeljar í Hrísey þar sem hann er settur í sokk í sjó og ræktaður áfram upp í markaðshæft ástand. Í fyrrasumar var báturinn á sams konar veiðum í Breiðafirði en flutti sig svo yfir í Hvalfjörðinn núna eftir áramótin.

Sauðfjárbóndinn og kræklingaræktandinn Bergsveinn Reynisson frá Gróustöðum í Reykhólahreppi stendur að þessum veiðum og er skipstjórinn á bátnum. Hann segir að sýnishorn af framleiðslunni hafi fengið mjög góðar viðtökur á markaði í Belgíu og gerir sér vonir um að þessi aðferð við kræklingaræktun geti orðið arðbær.

Nánar er fjallað um málið í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.