Nýr og fullkominn frystitogari, Ramoen, hefur bæst í flota Norðmanna en hann er í eigu samnefndrar útgerðar. Kystmagasinet.no segir frá togaranum í máli og myndum á vefsíðu sinni. Þar kemur fram að skipið er 75,1 metra langt, og 16 metra breitt. Það var smíðað hjá spænsku skipasmíðastöðinni Astillero Armon Gijon og kostaði 340 milljónir norskra króna eða jafnvirði 4,5 milljarða íslenskra króna.

Ramoen er hinn glæsilegasti að öllu leyti og búinn öllum fullkomnustu tækjum sem völ er á. Þar á meðal vatnsskurðarvél frá Völku en þetta er fyrsta skipið sem Valka selur slíkan búnað í skip. Sams konar vél verður sett í nýja Sólbergið, sem Rammi er með í smíðum, en með þessum búnaði skapast möguleikar til þess að skera flök í bita úti á sjó.

Gert er ráð fyrir 28 manna áhöfn á Ramoen í hverjum túr og verða 10-11 menn að jafnaði á vinnsludekkinu í senn. Frystigetan er 45-50 tonn af flökum á sólarhring og um 30 tonn af hausuðu og slægðu eða rækjum. Aðeins allra stærsti fiskurinn verður heilfrystur. Frystirými í lest er fyrir 550-600 tonn.

Reiknað er með að togarinn verði í rekstri 330 daga á ári og verður veiðisvæði hans í Barentshafi, Norðursjó og við Grænland.

Sjá nánar frásögn og myndir HÉR.