Um helgina var nýsmíðuðu nótaskipi í Noregi gefið nafnið Torbas við hátíðlega athöfn í Raudeberg í Vestur-Noregi að viðstöddum miklum mannfjölda. Skipið er að sjálfsögðu af fullkomnustu gerð,  69,90 metra langt og stærsta fiskiskipið í Sogn og Fjordane fylki. Eigendur eru bræðurnir Tore og Agnar Lyng.

Stálvinnan vegna smíði skipsins fór fram í Póllandi en lokið var við smíðina í Noregi. Kostnaðurinn í heild nam um 200 milljónum norskra króna eða jafnvirði 3,4 milljarða íslenskra. Sjá mynd úr brúnni á vef Fiskebåt.

Til gamans má geta þess að tilurð smíðinnar á sér íslenskan vinkil. Í viðtali við Fiskeribladet/Fiskaren skýrir annar eigendanna, Agnar Lyng, frá því að á árinu 2012 hafi þeir bræður verið að velta því fyrir sér hvernig markaðurinn fyrir notuð skip væri að breytast. Á sama tíma hafi þá skotið upp kollinum tilboð í þáverandi Torbas sem var nálægt því sem þeir bræður gátu hugsað sér að láta skipið á. Tilboðið var frá Síldarvinnslunni á Íslandi og ákváðu bræðurnir að slá til og selja. „Við voru eiginlega ekki tilbúnir til að hefja smíði nýs skips,“ sagði Agnar.

Gamli Torbas fékk nafnið Börkur NK við komuna til Íslands en þegar Síldarvinnslan endurnýjaði Börk á nýjan leik árið 2014 með skipinu Malene S var gamli Torbas seldur til Noregs.