Áframhaldandi prófanir hafa verið gerðir á nýyfirstöðnu netaralli á hvalafælum og ljósfælum fyrir fugla. Prófanir á hvalafælum fóru fram um borð í Þorleifi EA fyrir norðan land en á ljósfælunum í Breiðafirði á Saxhamri SH.
Fyrstu niðurstöður lofa góðu hvað hvalafælurnar varðar en mun síðri varð árangurinn af ljósfælunum.
Sams konar prófanir fóru fram á netarallinu fyrir einu ári síðan með annars konar tæknibúnaði. Var þar um að ræða tæki sem gefa frá sér hátíðnihljóð sem hugsanlegt var talið að gæti dregið úr því að smáhvalir flæktust í þorskanet. Búnaðurinn dró þó alls ekki úr ásókn smáhvala í netin heldur þvert á móti virtist sem hann drægi að sér spendýr.
Smáhveli eins og hnísa en einnig hnýðingur og leiftur, sem eru heldur stærri en hnísan, slæðast af og til í þorskanetin. Vottunarstofur eins og Marine Stewartship Council (MSC) og kaupendur fisks frá Íslandi hafa þrýst á um það að gripið verði til aðgerða til að koma í veg fyrir eða draga verulega úr hættu á því að sjávarspendýr, sérstaklega hvalir, veiðist sem meðafli.
Líkir eftir aðvörunarhljóðum hnísa
Á nýyfirstöðnu netaralli voru prófaðar spendýrafælur af annarri og fullkomnari gerð. Guðjón Sigurðsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, heldur utan um þessar prófanir.
„Prófanir á ljósfælum sem gerðar voru í Breiðafirði komu ekkert sérstaklega vel út. Þær virkuðu alls ekki á fuglana og við fengum eiginlega bara fugla í ljósin.“
Veiðin í Breiðafirðinum var með ágætum, eða um 25 tonn á dag þá daga sem netarallið stóð yfir.
Guðjón segir á hinn bóginn að hvalafælurnar lofi góðu þótt prófunum fyrir norðan og austan hafi ekki verið lokið með öllu.
„Hvalafælurnar eiga að vera tæknilegri og betri núna. Þær eiga að gefa frá sér aðvörunarhljóð frá hnísum en fælurnar sem við prófuðum í fyrra gáfu í raun einungis frá sér hátíðnihávaða sem virtist fremur laða að sér dýrin heldur en hitt. Þessi prófun núna fer því mun betur af stað. Það var þó samt komin ein hnísa komin í net þrátt fyrir fælu. En dragi þær úr því að sjávarspendýr flækist í þorskanet er til mikils unnið.“
Guðjón segir að það sem einkum þrýsti á um að árangur náist á þessu sviði séu kröfur frá Bandaríkjunum sem taki gildi árið 2020 um tekið sé fyrir að spendýr séu meðafli í fiskveiðum.
„Við höfum því nokkur ár til þess að verða við þeim og erum því að leita að tæknilegri lausn sem hægt er að beita. Ráðuneytið leggur mikla áherslu á þetta og þar með er sett pressa á Hafrannsóknastofnun. Það er gott að nýta netarallið til þessara prófana,“ segir Guðjón.