Vinnunefnd innan Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) hefur samþykkt að leggja til við ráðið að niðurstöður tveggja nýrra aðferða við makrílrannsóknir verði notaðar að hluta til þess að meta stærð makrílstofnsins í NA-Atlantshafi.
Fram að þessu hefur stofnmat makríls og þar með veiðiráðgjöf byggst á niðurstöðum svokallaðrar eggjatalningar þriðja hvert ár og á aflatölum, en á undanförnum árum hefur mönnum orðið ljóst að með þessu móti hafi stofnstærðin verið vanmetin, enda virðist stofninn í góðu ástandi þótt veiðarnar hafi farið langt fram úr veiðiráðgjöfinni.
Á fundinum í Kaupmannahöfn voru teknar til umfjöllunar tvær aðrar aðferðir. Annars vegar trollaðferðin sem rannsóknaskip frá Noregi, Íslandi og Færeyjum hafa beitt sameiginlega á undanförnum árum og gaf vísbendingu um að makrílstofninn síðastliðið sumar hefði verið 8,8 milljóna tonna að stærð. Hin aðferðin, sem Norðmenn hafa sinnt allt frá 1976 en hefur ekki enn verið notuð í formlegt stofnmat, er makrílmerkingar sem einnig hafa gefið til kynna stærri makrílstofn en Alþjóðahafrannsóknaráðið hefur gengið út frá.
Sjá nánar í Fiskifréttum