Ný frystigeymsla HB Granda á Norðurgarði var vígð í gær, á sjómannadaginn, og var henni gefið nafnið Ísbjörninn. Efnt var til hugmyndasamkeppni meðal starfsmanna félagsins um nafnið og bárust yfir 400 tillögur með alls 305 nöfnum.

Vinningstillagan var komin frá sjö þeirra. Var það samdóma álit dómnefndar að nafnið væri þjált, lýsandi fyrir þá starfsemi sem fram á að fara í húsinu og með góða skírskotun til fortíðarinnar en Ísbjörninn í Reykjavík, sem var í útgerð og fiskvinnslu á sínum tíma, er einn af forverum þess félags sem nú er þekkt sem HB Grandi.

Talið er að um 1.500 manns hafi verið viðstaddir vígslu frystigeymslunnar og að ekki færri en 15.000 manns hafi lagt leið sína á Norðurgarð í gær en þar var vegleg hátíðardagskrá á vegum HB Granda í tilefni sjómannadagsins. Meðal boðsgesta voru forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sem flutti ræðu, Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs Reykjavíkur.

Sjá nánar á vef HB Granda .