Nú stendur yfir mikil endurnýjunarbylgja í norska fiskiskipaflotanum og eru flest skipanna smíðuð í Tyrklandi. Um helgina var nýjasta skipinu, Atlantic Viking, gefið nafn í skipasmíðastöðinni Tersan utan við Istanbul í Tyrklandi.

Skipið er frystitogari, 74,7 metra langur og 15,4 metra breiður. Hann er sá fjórði í röð nýrra togara sem stöðin hefur afgreitt til Noregs en hin skipin heita Havstrand, Havbryn og Volstad. Síðar í haust verður svo fimmta skipið afhent frá sömu stöð en það heitir Andenesfisk 1.

Atlantic Viking er með veiðiheimildir í þorski, ufsa og ýsu og fer til veiða eftir nokkrar vikur.

Þetta kemur fram á vef norskra útvegsmanna.