Tilkoma nýrrar vörulínu frá íslenska fiskframleiðandanum Icelandic Group hefur stóraukið sölu fiskrétta hjá Tesco, stærstu smásölukeðju Bretlands. Nýju fiskréttirnir komu á markað í janúar síðastliðnum undir nafninu „The Saucy Fish Co“ og hafa umbúðirnar og nýstárlegar bragðtegundir slegið í gegn hjá breskum neytendum.

Nýjustu tölur frá Tesco (sem ná frá mars á þessu ári fram í júní) sýna 55% aukningu milli ára í sölu fiskrétta og þakka yfirmenn verslunarkeðjunnar þetta tilkomu nýju fiskréttanna frá Icelandic Group, að því er fram kemur í frétt frá fyrirtækinu.

Vörulínan hlaut í apríl sl. hin eftirsóttu Seafood Prix d'Elite verðlaun sem veitt eru á alþjóðlegu sjávarútvegssýningunni í Brussel. Verðlaunin eru veitt árlega og er verðlaunahafinn valinn úr hundruðum nýrra fiskrétta.

Saucy Fish fiskréttunum er pakkað í Seachill-verksmiðjum Icelandic Group í Grimsby. Icelandic Group er í eigu eignarhaldsfélagsins Vestia, sem aftur er í eigu Landsbanka Íslands. Rekstur fyrirtækisins hefur gengið vel. Hagnaður af reglulegri starfsemi (fyrir skatta) nam 3 milljörðum króna á síðasta ári. Skuldir voru greiddar niður um 12 milljarða króna og heildarvelta fyrirtækisins nam jafnvirði 180 milljarða króna sem þýðir að fyrirtækið er eitt hið umsvifamesta í íslenskri eigu nú um stundir.