Grænlenska landsstjórnin áformar að fjölga þeim fisktegundum sem greidd eru veiðigjöld fyrir og láta þau einnig ná til úthafsveiða á þorski, ýsu, ufsa og karfa. Ráðherra fjármála í landsstjórninni hefur talað fyrir þessum áformum og segir að þau eigi að skila 15 milljónum danskra króna eða jafnvirði 248 milljóna íslenskra króna.
Að auki á að útvíkka reglur um veiðigjöld fyrir makríl og aðrar uppsjávartegundir þannig að þau nái ekki aðeins til veiða við Austur-Grænland heldur einnig veiða grænlenskra skipa í lögsögum annarra ríkja og á alþjóðlegu hafsvæði. Þessi viðbót á að gefa jafnvirði 57 milljóna ISK. Þetta kemur fram á vef grænlenska útvarpsins.
Veiðigjöld eru ekki nýtt fyrirbrigði í Grænlandi. Veiðigjald var fyrst lagt á rækju árið 1991, veiðigjald á grálúðu var innleitt árið 2013 og svo er veiðigjald lagt á makríl við A-Grænland eins og kunnugt er.