Smíði er að hefjast hjá Karstensens skipasmíðastöðinni í Danmörku á tveimur uppsjávarskipum fyrir Íslendinga. Annað er smíðað fyrir Skinney-Þinganes og hitt fyrir Gjögur. Skip Skinneyjar-Þinganess á að vera tilbúið til afhendingar í mars 2024 og skip Gjögurs í apríl 2025. Þau verða með dísilknúnum aðalvélum frá Wärtstilä og afl þeirra er 5.200 kW. Skrúfan verður fjórir metrar í þvermál.
Wärtstilä 8V31 vélin fékk á árinu 2015 viðurkenningu af Heimsmetabók Guinness sem skilvirkasta fjórgengis dísilvéls heims.
Skipin verða 75,4 metrar á lengd og 16,5 metrar á breidd. RSW tankarnir eru 2.425 rúmmetrar. Skip Skinneyjar-Þinganess verður þannig hannað að djúpristan verði sem minnsta eða um 6,5 metrar sem kemur til vegna sérstakra aðstæðna við innsiglinguna til Hafnar í Hornafirði.
Skinney-Þinganes gerir nú út tvö uppsjávarskip; Ásgrím Halldórsson SF og Jónu Eðvalds SF, en auk þess fjögur togveiðiskip og einn línubát. Gjögur gerir út uppsjávarfrystiskipið Hákon EA, sem smíðaður var í Chile 2001 eftir teikningum Nautic, og togbátana Vörð EA og Áskel EA sem voru hluti af sjö skipa raðsmíðaverkefni Vard skipasmíðastöðvarinnar og komu til landsins 2019.