Ný tækni var prófuð í tengslum við mælingar á loðnu í síðasta loðnuleiðangri Árna Friðrikssonar. Um er ræða búnað sem kallast Fiskgreinir, þróuð af StjörnuOdda og Hafrannsóknastofnun í samvinnu með Hampiðjunni, styrkt af Tækniþróunarsjóði RannÍs. Búnaðurinn er á lokastigi hönnunar og var áður prófaður um borð í togurum, m.a. í karfarannsókn, en þetta er í fyrst skipti sem prófun er gerð samhliða bergmálsmælingu. Sagt er frá þessu á heimasíðu Hafró.
Fiskgreinir er hannaður sem plasthringur festur fyrir framan vörpupoka og inni í hringinn eru festar tvær stereo myndavélar. Myndavélar af þessari gerð taka þrívíddarmyndir af viðfangsefninu sem gerir kleift að mæla lengd loðnunnar óháð fjarlægð frá linsu, en einnig er ætlað að þjálfa tauganet (gervigreind) til að þekkja loðnuna frá öðrum tegundum. Í þessari prófun var notast við rautt ljós, sem hefur síður áhrif á atferli loðnunnar.
Streymt í rauntíma til úrvinnslu
Hampiðjan hefur hannað sérsniðinn kapal, svokallaðan DynIce Data kapal og leystu málið við að setja kapalinn í veiðarfærið sem tengir tækið við skipið, svo hægt sé að streyma myndefninu í rauntíma til úrvinnslu. Með þessari rauntímagreiningu er ekki aðeins hægt að spara tíma við gagnasöfnun heldur einnig að þjálfa tauganetið til að þekkja og mæla loðnuna sjálfvirkt. Með því að nota þennan búnað samhliða bergmálsmælingu má auka nákvæmni á greiningu þeirra. Fyrstu niðurstöður prófunarinnar eru hvetjandi og benda til þess að tæknin geti skilað aukinni nákvæmni bergmálsmælinga með að sjá hvað er að koma inn í vörpuna á hverjum stað og dýpi og hvernig samsetning torfunnar er með tilliti til aldurs eða tegundar.
Samvinna vísindastofnana og hátæknifyrirtækja
Verkefnið sýnir vel hvernig samvinna milli vísindastofnanna og hátæknifyrirtækja getur leitt til nýsköpunar sem bætir bæði rannsóknir og atvinnuveiðar. Með frekari þróun er stefnd að innleiðing hennar verði möguleg í atvinnuveiðum innan skamms, sem mun efla þá enn frekar þekkingu okkar um líffræðilega eiginleika hafsins en jafnframt auka nákvæmni veiða og spara þannig tíma og orku.
Verkefnastjóri á þessari þróunarvinnu er Haraldur A. Einarsson en leiðangursstjóri við þessa prófun var Teresa Sofia Giesta da Silva.