Nýrri sorpflokkunarstöð HB Granda á Akranesi verður formlega opnuð við athöfn sem haldin verður næstkomandi fimmtudag. Tilgangurinn með starfrækslu sérstakrar sorpflokkunarstöðvar er að safna saman sorpi sem fellur til vegna starfsemi félagsins og dótturfélaga á Akranesi.
Fyrirmyndin er flokkunarstöðvar sem starfræktar eru hjá HB Granda í Reykjavík og á Vopnafirði. Markmiðið er að draga verulega úr urðun sorps og auka hlutfall til endurvinnslu.
Við athöfnina verða veitt verðlaun í samkeppni sem staðið hefur meðal starfsmanna fyrirtækisins um nafn á flokkunarstöðina. Einnig verður Bláa hernum veittur fjárstyrkur frá HB Granda til frekari hreinsunarstarfa en þau samtök hafa, sem kunnugt er, látið mikið að sér kveða við hreinsun strandlengjunnar mörg undanfarin ár.
Sjá nánar á vef HB Granda.