Á árunum 1990 til 2013 hefur norskum fiskiskipum fækkað úr 17.391 í 6.126 skip. Á sama tíma hafa verið smíðuð 3.422 ný skip og 1.052 skip hafa verið mikið endurbyggð eða lengd. Þetta kemur fram á vef norska blaðsins Kystmagasynet .

Nútímavæðing flotans hefur skapað sjómönnum öruggari vinnustað. Færri sjómenn látast nú til sjós þrátt fyrir að meðalaldur á norskum skipum sé enn nokkuð hár.

Þróunin er sú að meiri áhersla hefur verið lögð á að endurnýja stærri skip. Á árunum 1990 til 1995 voru árlega smíðaðir 96 til 180 bátar undir 8 metrum að lengd. Á árinu 2007 voru aðeins smíðaðir 33 nýir bátar í þessum stærðarflokki.

Í stærðarflokknum 8 til 13 metrar hefur endurnýjunin verið nokkuð jöfn lengst af. Aðeins á seinni árum hefur nýsmiði dregist saman og árið 2013 voru smíðaðir 30 nýir bátar, flestir lengri en 10 metrar.

Smíði á stærri smábátum og skipum sem veiða við ströndina, að stærðinni 13 til 30 metrar, dróst mikið saman í upphafi þessarar aldar. Aðeins hafa verið smíðaðir fáeinir bátar í þessum stærðarflokki á ári síðustu tíu árin. Mjög lítil endurnýjun hefur orðið í bátum að lengdinni 21 til 50 metrar.

Árið 2013 voru afhent 14 skip sem eru 50 metrar að lengd eða stærri. Á því tímabili sem hér er til skoðunar hafa ekki verið afhentir fleiri nýir bátar af stærri gerðinni frá árinu 1999.

Áhersla er lögð á það að nýir bátar skapi aukið öryggi. Frá árinu 1981 hafa 168 sjómenn látist á sjó. Flest slysin hafa orðið á bátum sem eru í kringum 14 metrar að lengd.