Ný saltfiskverkun er tekin til starfa á Raufarhöfn. Eigandinn stundar þar útgerð og segir að með þessu vilji fyrirtækið leggja sitt lóð á vogarskálarnar við að efla samfélagið á Raufarhöfn, sem hefur mjög átt undir högg að sækja,að því er RÚV greinir frá.
Fyrirtækið Hólmsteinn Helgason hf. hefur lengi stundað útgerð frá Raufarhöfn. Útgerðin á tvo báta og ræður yfir talsverðum kvóta. Aflanum hefur síðustu ár ýmist verið landað til vinnslu hjá öðrum á Raufarhöfn, eða hann seldur burt á markað. Nú hefur fyrirtækið opnað eigin saltfiskverkun. Þangað fer framvegis allur afli bátanna, auk þess sem tveir aðrir bátar landa þar til vinnslu. 5-10 manns koma til með að starfa við vinnsluna að sögn Hólmsteins Björnssonar eiganda fyrirtækisins.
„Faðir minn rak vinnslu þarna lengi og svo þegar hann var orðinn fullorðinn og heilsan farin að gefa eftir, þá var því lokað og menn voru þá bara að einbeita sér að því að gera út. en nú er samsagt meiningin að rifja þetta upp."
Mikil fólksfækkun hefur orðið á Raufarhöfn síðustu ár og byggðin þar átt undir högg að sækja. Hólmsteinn segir það ekki síst hafa hvatt eigendur fyrirtækisins til að stofna þessa saltfiskverkun. „Við viljum leggja okkar lóð á vogaskálarnar með þetta og finnst við bera ákveðna ábyrgð í sambandi við samfélagið," segir hann í samtali við RÚV.