Gert er ráð fyrir að Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) kynni nýja veiðiráðgjöf í makríl um miðjan maí næstkomandi. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu norsku hafrannsóknastofnunarinnar.
Sem kunnugt er var veiðiráðgjöf ICES fyrir árið 2014 ekki byggð á vísindalegum grunni heldur var lagt til að veiðin í ár takmarkaðist við meðalafla síðustu ára sem var í kringum 900.000 tonn.
Í nýju veiðiráðgjöfinni verður ekki aðeins tekið tillit til eggjamælinga og aflaskýrslna eins og gert hefur verið á liðnum árum heldur einnig hafðar til hliðsjónar nýjar rannsóknaaðferðir sem beitt hefur verið í seinni tíð og byggjast á togmælingum og merkingum makríls.