Hér á landi er unnið að þróun og gerð sendis á stórhveli sem gerir í fyrsta sinn kleift að fylgjast með ferðum stórhvela í N-Atlantshafi í tvö til fjögur ár í senn en hingað til hefur aðeins tekist að merkja og fylgjast með hvölum í nokkrar klukkustundir, daga eða vikur með því að skjóta örvum í dýrin.
„Hið nýja merki er skaðlaust fyrir dýrin, umhverfisvænt og losað á einfaldan hátt í lok tímabils,“ segir Peter Hagen, sem er verkefnisstjóri fyrirtækisins Lifriki Ocean, Follow Whale, í Danmörku sem er að baki verkefninu. Fyrstu hvalirnir verða merktir síðla næsta árs.
Hagen segir í samtali við Viðskiptablaðið að fyrirtækið sé í raun upplýsingatæknifyrirtæki sem svo vill til að starfi með hvölum.
„Merkin á hvölunum munu ekki aðeins safna upplýsingum um ferðir hvalanna sjálfra, og afla þar með gríðarlegra upplýsinga sem hingað til hefur vantað um hvalina, heldur einnig um hafið sem þeir synda um. Við munum þannig fylla upp í stór göt í þekkingu okkar um úthöfin, sem munu gagnast bæði vísindamönnum og fyrirtækjum.“
Sjá nánar í Viðskiptablaðinu.